Fótbolti

Aðeins einn leikmaður fékk sneið af afmælisköku Mourinhos

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho færir Lorenzo Pellegrini kökusneið.
José Mourinho færir Lorenzo Pellegrini kökusneið. getty/Fabio Rossi

José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, varð sextugur í gær. Leikmenn og starfslið Roma fögnuðu með Portúgalanum á þessum tímamótum.

Mourinho fékk að sjálfsögðu afmælisköku í tilefni dagsins. Á henni stóð: Til hamingju með daginn, hinn sérstaki. Mourinho blés á kerti á kökunni og virtist snortinn yfir öllu tilstandinu.

Afmælisbarnið blæs á kerti á kökunni.getty/Fabio Rossi

Portúgalinn deildi hins vegar kökunni sinni bara með einum leikmanni Roma. Fyrirliðinn Lorenzo Pellegrini var sá heppni. Mourinho gerði það sama í fyrra, þegar hann varð 59 ára.

Mourinho er á sínu öðru tímabili með Roma. Í fyrra vann liðið Sambandsdeild Evrópu undir hans stjórn.

Roma á erfitt verkefni fyrir höndum á sunnudaginn en þá sækja strákarnir hans Mourinhos Napoli, topplið ítölsku úrvalsdeildarinnar, heim. Roma er í 5. sæti deildarinnar og í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta ári.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.