Búist er við því að myndband af atvikinu verði gert opinbert síðar í dag og óttast yfirvöld að þá sjóði upp úr og hefur viðbúnaður lögreglu veið aukinn til muna. Lögfræðingur fjölskyldu hins látna, sem hét Tyre Nichols, segir að mynbandið sýni svart á hvítu barsmíðarnar sem Nichols varð fyrir en eftir handtökuna var hann spreyjaður með piparúða, handjárnaður, skotinn með rafbyssu og laminn og barinn.
Nichols, sem er svartur, var stöðvaður af lögreglu fyrir ógætilegan akstur í Memphis fyrr í mánuðinum. Árás lögreglumannanna, sem einnig eru allir svartir, stóð yfir í um þrjár mínútur, að sögn Guardian. Nichols lést af áverkum sínum á sjúkrahúsi þremur dögum eftir árásina.
Lögreglumennirnir fimm gætu átt allt að sextíu ára fangelsi yfir höfði sér. Biden forseti hvatti almenning til að mótmæla á friðsaman hátt, reiði fólksins sé skiljanleg, en ofbeldi sé aldrei ásættanlegt.