Innlent

Gert að greiða sam­fanga miska­bætur eftir árás með tré­kefli

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð að kvöldi föstudagsins 18. desember 2020, í eldhúsi í fangelsinu að Litla-Hrauni.
Árásin var gerð að kvöldi föstudagsins 18. desember 2020, í eldhúsi í fangelsinu að Litla-Hrauni. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fangann Þorláki Fannari Albertssyni til að greiða samfanga sínum 300 þúsund krónur í miskabætur eftir árás með trékefli inni á Litla-Hrauni á Eyrarbakka í desember 2020.

Þorlákur Fannar afplánar nú sjö og hálfs árs dóm vegna tilraunar til manndráps, alvarlegrar líkamsárásar og frelsissviptingar. Var hann þá meðal annars dæmdur fyrir að hafa ráðist á leigusala sinn í íbúð á Langsholtsvegi í Reykjavík sumarið 2020.

Manninum var ekki gerð sérstök refsing í málinu nú, ef frá er telin greiðsla miskabóta, auk sakar- og málskostnaðar.

Í ákærunni nú kemur fram að Þorlákur Fannar hafi ráðist á samfanga sinn með því að slá trékefli í höfuð þannig að hann hafi fallið í gólf. Hann hafi svo haldið árásinni áfram með því að slá hann ítrekað í höfuð og líkama og að lokum sparkað í höfuð hans.

Fórnarlamb árásarinnar hlaut bæði mar og blæðingu undir húð aftan við hægra eyra og glóðarauga.

Fórnarlambið fór fram á að Þorlákur Fannar myndi greiða tvær milljónir króna í miskabætur. Þá var gerð krafa um að viðurkennd yrði skaðabótaskylda vegna líkamstjóns.

Þorlákur Fannar viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem rakin var í ákæru. Hann mótmælti þó bótakröfunni sem hann sagði vera of háa.

Samkvæmt sakarvottorði hefur Þorlákur Fannar tólf sinnum áður sætt refsingu.

Brotið sem hann var dæmdur fyrir nú var framið áður en Landsréttur dæmdi hann í sjö og hálfs árs fangelsi. „Er það mat dómsins að brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefði ekki leitt til þyngri refsingar en ákærða var gert að sæta í áðurgreindum dómi. Verður ákærða því ekki gerð sérstök refsing í máli þessu,“ segir í dómi.

Hæfilegt var talið að maðurinn myndi greiða fórnarlambi árásarinnar 300 þúsund krónur í miskabætur. Varðandi skaðabótaskylduna þá taldi dómari að ekkert lægi fyrir um að brotþolinn hafi orðið fyrir líkamstjóni umfram það sem lýst var í ákæru og að krafan væri verulega vanreifuð. Var því ekki komist hjá því að vísa kröfunni frá dómi.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.