Fótbolti

Kvennalið Bayern auglýsir afrek karlanna á búningunum og Valur er í sömu stöðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir sést hér i búningi Bayern München og þarna má sjá stjörnurnar fimm.
Íslenska landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir sést hér i búningi Bayern München og þarna má sjá stjörnurnar fimm. Getty/Christian Hofer

Stjörnur á búningum kvennaliða eru til umræðu í Noregi eftir að eitt stærsta félag Noregs, Rosenborg, ákvað að breyta búningum sínum.

Hingað til höfðu stjörnur á búningi norska félagsins táknað afrek karlaliðs félagsins sem er eitt það sigursælasta í sögu norska fótboltans.

Karlalið Rosenborg hefur unnið norska titilinn 26 sinnum og er því með tvær stjörnur á búningi sínum en Norðmenn gefa eina stjörnu fyrir hverja tíu titla.

Kvennalið Rosenborg hefur unnið sjö titla og ætti því ekki að vera með neina stjörnu á sínum búningi. Vegna þessa misræmis þá ákvað Rosenborg að hætta með allar stjörnur á búningi sínum.

Norðmenn eiga leikmann hjá Bayern München eins og við Íslendingar og hafa því áhuga á búningi kvennaliðs Bæjara. Hjá Bayern spila íslensku landsliðskonurnar Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir.

Kvennalið Bayern spilar með fimm stjörnur á búningi sínum þökk sé 32 Þýskalandsmeistaratitla karlaliðsins. Kvennaliðið hefur unnið fóra Þýskalandsmeistaratitla og mætti því samkvæmt þýskum lögum að vera með eina stjörnu.

Í Þýskalandi þá fá liðin eina stjörnu eftir þrjá titla, tvær stjörnur eftir fimm titla, þrjár stjörnur eftir tíu tutla, fjórar stjörnur eftir tuttugu titla og fimm stjörnur eftir þrjátíu titla.

Elísa Viðarsdóttir er fyrirliði Vals og sést hér í búningnum með fjórar stjörnur til marks um árangur karlaliðs félagsins.Vísir/Diego

Norska ríkisútvarpið fjallar um málið og segir þetta dæmi um kynjamismunun að konurnar í Bayern München þurfi að vera afrek karlanna á búningi sínum en ekki sína eigin afrek.

Þetta er ekkert einsdæmi fyrir Þýskaland því íslensku félögin spila einnig með stjörnur á búningum sínum.

Íslandsmeistarar kvenna hjá Val spila þannig með fimm stjörnur á sínum búningi sem tákna 23 Íslandsmeistaratitla karlaliðsins.

Konurnar urðu Íslandsmeistarar í þrettánda sinn í sumar og ættu því bara að vera með tvær stjörnur á búningi sínum samkvæmt íslensku reglunum sem eru ein stjarna fyrir hverja fimm Íslandsmeistaratitla.

Kvennalið Breiðabliks er aftur á móti með þetta á hreinu því þær spila með þrjár stjörnur á búningi sínum sem tákna átján Íslandsmeistaratitla kvennaliðsins en karlalið Breiðablik varð bara Íslandsmeistari í annað skiptið síðasta sumar. Karlalið Breiðabliks er ekki með neina stjörnu á sínum búningi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.