Innlent

Allt landið gult, vegum lokað og flugferðir felldar niður

Samúel Karl Ólason skrifar
Allt landið gult
Veðurstofa Íslands

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðvesturhorninu vegna veðurs og þá er gul viðvörun í gildi annarsstaðar á landinu. Hvassviðri er víða og eru akstursskilyrði að versna víðast á svæðinu.

Uppfært 13:45

Búið er að opna umferð um Hellisheiði og Þrengsli. Vegagerðin varar þó við því að þar er hálka, éljagangur og hvasst. Mosfellsheiði er enn lokuð. Þá er hálka á Reykjanesbraut með skafrenningi og hvassviðri. Akstursskilyrði þar eru slæm.

Uppfært 11:00

Veðurstofa Íslands segir suðvestan 18-25 á suðvesturhorninu með dimmum éljum og mjög slæmu skyggni. Hvassast sé syðst. Fólk er bent á að fara varlega og fylgjast með spám og færð.

Veðrið á að ganga niður seinni partinn en gert er ráð fyrir dimmri él í allan dag.

Á morgun verður hæglætisveður samkvæmt Veðurstofunni og bjart og kalt. Annað kvöld lætur næsta lægð þó að sér kveða með vaxandi austanátt og snjókomu, slyddu eða rigningu. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að næsta vika verði líklega umhleypingasöm.

Innlandsflug fellt niður og vegum lokað víða

Allt innanlandsflug hefur verið fellt niður og hafa orðið miklar raskanir á Keflavíkurflugvelli. Öllum brottförum þaðan hefur verið frestað til þrjú í dag.

Vegagerðin segir akstursskilyrði fara versnandi víða. Á flestum vegum sé snjóþekja og skafrenningur eða éljagangur. Hellisheiði og Þrengslum hefur verið lokað.

Snjóþekja er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi með skafrenningi og hvassviðri. Von er á versnandi aksturskilyrðum þar.

Búið er að loka helstu fjallavegum á Suðurlandi. Vegagerðin segir snjóþekju eða hálku með skafrenningi og éljagangi á öðrum vegum á Suðurlandi. Þá segir Vegagerðin að snjóþekja sé á öllum helstu fjallavegum á Vesturlandi og flughálka sé í norðanverðum Hvalfirði.

Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði á Vestfjörðum, á Þröskuldum og á Flateyrarvegi. Varað er við því að fjallvegir verði erfiðir í dag og að flestum þeirra hafi verið lokað.

Á Norðurlandi hefur og Þverárfjalli verið lokað. Víðast hvar er hvasst. Hálka er á helstu leiðum á Norðausturlandi og á Austurlandi er hálka á Fjarðarheiði og víðar.

Fylgjast má með færð á vegum hér á vef Vegagerðarinnar og á Twittersíðu hennar sem sjá má hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×