Enski boltinn

„Held að Wen­ger hafi tapað þúsundasta leiknum sínum 6-0 svo ég er á­nægður með að það hafi ekki gerst“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var kalt í leik gærdagsins.
Það var kalt í leik gærdagsins. Martin Rickett/Getty Images

Jürgen Klopp stýrði Liverpool í þúsundasta sinn í gær þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Eftir leik sagðist Klopp vera sáttur með að hafa ekki tapað 6-0 líkt og Arsène Wenger gerði með Arsenal á sínum tíma.

Bæði Klopp og Graham Potter, þjálfari Chelsea, horfðu á björtu hliðarnar eftir jafntefli laugardagsins en bæði lið eru í hinni margrómuðu brekku þessa dagana.

„Ég var ánægður með hvernig við byrjuðum leikinn og hvernig við byrjuðum síðari hálfleikinn. Það var gott og við þurfum að finna leið til að lengja þessa góðu kafla,“ sagði Klopp að leik loknum.

„Við áttum augnablik þar sem við spiluðum nokkuð vel. Fyrir mér er þetta nokkuð skýrt, við þurfum að taka lítil skref fram á við og þetta var eitt slíkt skref. Ég reiknaði með að við myndum sýna framfarir frá síðasta deildarleik [3-0 tap gegn Brighton & Hove Albion] og þetta voru án efa framfarir. Það er mikilvægt.“

„Ég held að Arsène Wenger hafi tapað sínum þúsundasta leik 6-0 svo ég er ánægður með að það hafi ekki gerst.“

Að lokum var Klopp spurður út í möguleikann á að ná Meistaradeildarsæti.

„Við getum aðeins haft áhrif á það með sigri en við unnum ekki í dag. En það er mikið af leikjum eftir og ef þú telur stigin sem eru eftir í pottinum þá getur margt gerst. Til að komast í Meistaradeildina þurfum við að halda áfram að gera hlutina sem við gerðum í dag og í síðasta leik gegn Úlfunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×