Fótbolti

Sverrir Ingi og fé­lagar með ó­væntan bikar­sigur á Pan­at­hinai­kos

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi í leik kvöldsins.
Sverrir Ingi í leik kvöldsins. PAOK

Sverrir Ingi Ingason var í byrjunarliði PAOK sem vann 2-0 sigur á Panathinaikos í fyrri viðureign liðanna í grísku bikarkeppninni í fótbolta. 

Átta liða úrslit keppninnar hófust í kvöld og var Hörður Björgvin Magnússon ekki með gestunum að þessu sinni. Það nýttu heimamenn í PAOK sér en eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu þeir tvívegis og unnu góðan 2-0 sigur.

Segja má að sigurinn komi á óvart þar sem gestirnir eru á toppi grísku úrvalsdeildarinnar á meðan PAOK er í 4. sæti. 

Þetta er hins vegar annað tap Panathinaikos í síðustu þremur leikjum og ljóst að liðið þarf spila mun betur í síðari leik liðanna ætli það sér að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Sverrir Ingi lék allan leikinn í hjarta varnar PAOK og bar fyrirliðabandið.

Þá var Ögmundur Kristinsson á varamannabekk Olympiacos sem vann 1-0 sigur á Aris í kvöld og er því í góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×