Fótbolti

Drepinn af hundunum sínum

Sindri Sverrisson skrifar
Philemon Mulala var hluti af gullkynslóð Sambíu sem tryggði þjóðinni fyrstu stóru verðlaun sín í knattspyrnu karla.
Philemon Mulala var hluti af gullkynslóð Sambíu sem tryggði þjóðinni fyrstu stóru verðlaun sín í knattspyrnu karla. FACEBOOK/FAZ

Fótboltasamfélagið í Sambíu hefur síðustu daga syrgt fyrrverandi landsliðsframherjann Philemon Mulala sem lést eftir að hundarnir hans réðust á hann. Hann var sextugur að aldri.

Mulala átti heima í Licthenburg í Suður-Afríku og var í garðinum við heimili sitt þegar hann lést en hann var bitinn til bana af hundum sínum þremur. Eiginkona Mulala kom að honum látnum samkvæmt Sam Tselanyane, talsmanni lögreglunnar.

„Hún fór ekki til að kanna hvort eitthvað væri að [þegar hundarnir geltu] þar sem að mikil umferð er við húsið og hundarnir höfðu margoft gelt að gangandi vegfarendum og farartækjum sem fóru þarna framhjá,“ sagði Tselanyane.

Þegar eiginkona Mulala fór svo að leita að honum kom hún að honum þar sem hann lá hreyfingarlaus í garðinum og sá svo að hann hafði verið bitinn af hundunum þeirra.

„Þetta er svo sorglegur endir,“ sagði Sydney Mungala, talsmaður knattspyrnusambands Sambíu, við ESPN.

„Margir sem fylgdust með honum, sérstaklega stuðningsmenn Mufulira Wanderers, hafa verið að syrgja hann. Það muna margir eftir honum frá því að hann var í landsliðinu, þar sem hann tók þátt í að vinna fyrstu verðlaun sjálfstæðrar Sambíu,“ sagði Mungala.

Mulala var áberandi í landsliði Sambíu á níunda áratugnum en liðið vann Austur- og Mið-Afríkubikarinn árið 1984. Mulala skoraði þá tvisvar gegn Kenía í undanúrslitaleiknum. Hann átti einnig góðu gengi að fagna sem leikmaður Mufulira Wanderers í heimalandinu en flutti síðar til Suður-Afríku og lék þar með Cape Town Spurs og Dynamos FC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×