Innlent

Ákærður fyrir að brjóta á konu sem lá sofandi í rúmi sínu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið er til meðferðar við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Málið er til meðferðar við Héraðsdóm Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir nauðgun með því að hafa farið í heimildarleysi inn í húsnæði þar sem kona nokkur lá sofandi og brotið kynferðislega á henni. Krafist er fimm milljóna króna í miskabætur fyrir hönd konunnar.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að konan hafi verið sofandi þegar karlmaðurinn fór í heimildarleysi inn í húsnæðið. Hann hafi með ofbeldi og ólögmætri nauðung og án samþykkis hennar haft önnur kynferðismök en samræði við konuna.

Ákærði er sakaður um að hafa afklætt sig, farið upp í rúm til konunnar, lagst ofan á hana og haldið fastri. Hann hafi kysst hana á munninn og um allan líkama, þuklað á henni þar á meðal bæði á brjóstum og kynfærum. Þá hafi hann endurtekið sett fingur inn í leggöngu hennar og reynt að þröngva getnaðarlimi sínum inn í leggöng hennar.

Fram kemur í ákærunni að konan hafi sagt ákærða að hún vildi þetta ekki og barist á móti honum. Meðal annars með því að reyna að ýta manninum af sér og klemma saman lærin. Hún hafi svo náð að komast undan manninum og flýja úr herberginu.

Lágmarksrefsing við brotum karlmannsins er eins árs fangelsi en hámarksrefsing sextán ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×