Erlent

Opna á fjölgun kjarn­orku­vera í Sví­þjóð

Atli Ísleifsson skrifar
Ulf Kristersson tók við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar í haust.
Ulf Kristersson tók við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar í haust. AP

Ríkisstjórn Svíþjóðar kynnti í morgun fyrirhugaðar breytingar á regluverki sem gætu leitt til bæði fjölgunar og stækkunar kjarnorkuvera í landinu.

Forsætisráðherrann Ulf Kristersson og umhverfis- og loftslagsmálaráðherrann Romina Pourmokhtari kynntu frumvarpið sem myndi fela í sér að ákvæði í sænskum lögum, sem kveður á um að einungis sé hægt að vera með tíu kjarnaofna í rekstri í landinu á hverjum tíma, yrði fellt úr gildi.

Ákvæði um að einungis sé hægt að reka kjarnorkuver á þremur stöðum í landinu verður sömuleiðis fellt úr gildi. Kjarnorkuver eru nú rekin á þremur stöðum í Svíþjóð; Forsmark, norður af Stokkhólmi, Oskarshamn í Smálöndum og Ringhals, suður af Gautaborg.

„Maður ætti að gera byggt fleiri kjarnaofna á fleiri stöðum en hingað til hefur verið hægt,“ sagði Kristersson á fréttamannafundinum í morgun.

Orkumálin voru mikið í deiglunni í kosningabaráttunni í Svíþjóð í haust þar sem meðal annars var deilt um fýsileika þess að ráðast í gerð fleiri kjarnorkuvera og stækka þau sem fyrir eru. 

Hægriflokkarnir, sem saman mynduðu ríkisstjórn að loknum kosningum, töluðu allir fyrir slíkri nálgun, en Jafnaðarmannaflokkurinn snerist sömuleiðis á sveif með talsmönnum aukinnar kjarnorku mánuðina fyrir kosningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×