Innlent

Jónas Elíasson prófessor er látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jónas Elíasson
Jónas Elíasson

Dr. Jónas Elíasson, prófessor emeritus, lést á líknardeild Landspítalans sunnudaginn 8. janúar 84 ára gamall. 

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu.

Jónas var fæddur á Bakka í Hnífsdal þann 26. maí árið 1938 og var elstur fimm systkina. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1956 og lauk fyrrihlutaprófi frá verkfræðideild Háskóla Íslands árið 1959. MS-prófi lauk hann í Kaupmannahöfn árið 1962 og doktorsprófi í sömu borg árið 1973.

Jónas starfaði í Danmörku þar til eftir að hann lauk doktorsprófi að hann var ráðinn prófessor við Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands hvar hann starfaði fram að eftirlaunum árið 2008. Árin 1985 til 1987 var hann aðstoðarmaður iðnaðarráðherra.

Jónas var mikils metinn verkfræðingur og leiðbeinandi fjölda doktors- og meistaranema. Átti hann stóran þátt í að byggja upp fræðasvið sitt í HÍ og þróa nám við umhverfis- og byggingardeild. Jónas var virkur pistlahöfundar og skrifaði fjölmarga pistla á Vísi.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag kemur fram að hann hafi kvænst Ásthildi Erlingsdóttur árið 1961 og eignuðust þau tvö börn. Ásthildur lést árið 1993. Eftirlifandi sambýliskona hans er Kristín Erna Guðmundsdóttir og eiga þau einn son saman.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×