Fótbolti

Ron­aldo um val sitt að fara til Al-Nassr: Vill líka hjálpa kvenna­fót­boltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki fyrir Real Madrid en þar átti hann sín bestu ár í boltanum. Félagið var ekki með kvennalið stærsta hluta þess tíma.
Cristiano Ronaldo fagnar marki fyrir Real Madrid en þar átti hann sín bestu ár í boltanum. Félagið var ekki með kvennalið stærsta hluta þess tíma. AP/Manu Fernandez

Flestir efast um að Cristiano Ronaldo tali gegn mannréttindabrotum í Sádí Arabíu á tíma sínum sem leikmaður Al-Nassr. Hann ætlar aftur á móti að hjálpa kvennafótboltanum í landi sem bannaði konum að mæta á kappleiki.

Al-Nassr er að borga Ronaldo tvö hundruð milljón evrur á ári eða þrjátíu milljarða íslenskra króna. Hann valdi það að yfirgefa Evrópu á þessum tímapunkti á ferlinum.

Ronaldo sagði að fjöldi liða frá Evrópu, Brasilíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Portúgal hafi vilja semja við hann en að hann hafi valið Al-Nassr.

Ronaldo talaði um markmið sitt nú þegar hann er kominn í þessa lítt þekktu deild á Arabíuskaganum.

„Þetta er gott tækifæri fyrir mig til að hjálpa til með reynslu minni og þekkingu,“ sagði Cristiano Ronaldo.

„Ég vil líka hjálpa kvennafótboltanum og ég vil gefa aðra ímynd af landinu og fótbolta þess,“ sagði Cristiano.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa lengst af staðið gegn þátttöku kvenna í íþróttum og þeim hömlum hefur verið aflétt að litlu leyti síðustu ár. Til ársins 2018 fengu konur sem dæmi ekki aðgang að íþróttavöllum.

Hvað Ronaldo ætlar að gera fyrir knattspyrnukonur í Sádí Arabíu fær örugglega mikla athygli eftir þessi ummæli hans. Ronaldo hefur samt ekki miklar áhyggjur af almenningsrómnum.

„Ég er hættur að pæla í því sem öðrum finnst. Nú býður mín ný áskorun í Asíu. Ég er einstakur leikmaður sem mun bæta met hérna líka,“ sagði Cristiano brosandi.

Amnesty samtökin hafa skorað á Ronaldo að nota athyglina á sér til að berjast fyrir mannréttindum í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×