Fótbolti

Ekkert til í því að Ron­aldo geti komið á láni ef liðið kemst í Meistara­deildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ronaldo getur ekki farið á láni til Newcastle þrátt fyrir að liðinu takist að tryggja sér Meistaradeildarsæti.
Ronaldo getur ekki farið á láni til Newcastle þrátt fyrir að liðinu takist að tryggja sér Meistaradeildarsæti. Harry Langer/DeFodi Images via Getty Images

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, segir ekkert til í þeim sögusögnum að portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo geti komið á láni til félagsins frá Al-Nassr ef Newcastle tekst að tryggja sér Meistaradeildarsæti.

Ronaldo gekk til liðs við Al-Nassr í Sádí-Arabíu á dögunum, en félagið er rekið af konungsfólki þar í landi. Newcastle er í eigu Mohammed Bin Salmans, krónprins Sádí-Arabíu, og hinir ýmsu miðla greindu frá því í vikunni að þessi tengsl hefðu orðið til þess að klásúla hafi verið sett í samning Ronaldo við sitt nýja félag.

Spænski miðillinn Marca var meðal þeirra miðla sem greindu frá því að samkvæmt klásúlunni gæti Ronaldo verið lánaður til Newcastle takist liðinu að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu. Þá var einnig greint frá umræddri klásúlu á Sky Sports.

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, sagði þó fyrir leik sinna manna gegn Arsenal í gærkvöldi að þetta væru einungis sögusagnir sem ekkert væri til í.

„Við Óskum Cristiano alls hins besta á sinni vegferð, en það er ekki sannleikskorn í þessu af okkar hálfu,“ sagði Howe aðspurður út í málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×