Fótbolti

Martínez borgar morðfjár fyrir varðhund

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vonandi er varðhundurinn sem Emilano Martínez festi kaup á í meira jafnvægi en eigandinn.
Vonandi er varðhundurinn sem Emilano Martínez festi kaup á í meira jafnvægi en eigandinn. vísir/getty

Emilano Martínez heldur áfram að koma sér í fréttirnar. Markvörðurinn hefur nú borgað fúlgur fjár fyrir varðhund sem á að verja heimsmeistaramedalíuna hans.

Martínez átti risastóran þátt í því að Argentína varð heimsmeistari í fyrsta sinn í 36 ár og var valinn besti markvörður HM í Katar.

Honum þykir greinilega vænt um gullmedalíuna sem hann fékk fyrir sigurinn á HM og ætlar ekki að glata henni. Martínez hefur því keypt belgískan malinois hund, sem eru meðal annars notaðir af bandaríska hernum, til að verja medalíuna. Fyrir hundinn greiddi Martínez tuttugu þúsund pund, eða rúmlega 3,4 milljónir íslenskra króna.

Martínez gerði allt vitlaust eftir úrslitaleik HM og virtist mikið í mun að pönkast í Kylian Mbappé sem skoraði þrennu í leiknum.

Hann söng níðsöngva um Mbappé eftir leik og mætti svo með brúðu með mynd af Mbappé þegar þeir argentínsku fóru á rútu í gegnum Buenos Aires til að fagna heimsmeistaratitlinum.

Frakkar voru ósáttir við stælana í Martínez og sendu meðal annars inn formlega kvörtun til argentínska knattspyrnusambandsins vegna hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×