Innlent

Seinka öllu flugi í Keflavík á morgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Ófremdarástand skapaðist á Keflavíkurflugvelli þegar ófært var um Reykjanesbraut í byrjun síðustu viku.
Ófremdarástand skapaðist á Keflavíkurflugvelli þegar ófært var um Reykjanesbraut í byrjun síðustu viku. Vísir/Fanndís

Öllum flugferðum Icelandair frá Keflavíkurflugvelli verður seinkað á morgun, gamlársdag, vegna veðurs. Útlit er fyrir erfið akstursskilyrði á Reykjanesbraut og í Reykjanesbæ í fyrramálið.

Spáð er töluverðum vindi og snjókomu frá því snemma á morgun og fram á nýársdag. Í tilkynningu frá Isavia er varað við því að veðrið gæti haft áhrif á allt flug á landinu fram á nýársdag. Isavia hvetur farþega til þess að fylgjast með upplýsingum um ástand vega, veður og flugtíma.

Icelandair sendi frá sér tilkynningu um að vegna veðurs og færðar verði öllum flugferðum til og frá Norður-Ameríku seinkað um klukkustund og öllum ferðum til og Evrópu um tvær klukkustundir á morgun. Seinkunin nær til tólf ferða til Keflavíkur frá Norður-Ameríku, ellefu brottfarir til Evrópu og ellefu komur þaðan síðdegis.

Flugfélagið beinir því til farþega sinna að taka rútu til Keflavíkur nema þeir hafi aðgang að vel búnu ökutæki. Gert sé ráð fyrir slæmu skyggni og erfiðri færð fyrir fólksbíla.

Innan við tvær vikur eru frá því að umferð um Keflavíkurflugvöll lamaðist að mestu leyti í nokkra sólarhringa vegna veðurs. Í byrjun síðustu viku var flugfært en farþegar og áhafnir komust ekki á flugvöllinn vegna ófærðar á Reykjanesbraut.

Gul veðurviðvörun vegna austan hríðar tekur gildi við Faxaflóa klukkan tvö í nótt. Spáð er 13-18 metrum á sekúndu og snjókomu auk þess sem búast megi við skafrenningi með takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Sambærilegar viðvaranir eru fyrir allt vestanvert landið og Suðausturland. Á Suðurlandi er nú appelsínugul veðurviðvörun sem á að taka gildi klukkan sjö í fyrramálið. Þar er spáð talsverðri eða mikilli snjókomu, fyrst á Reykjanesi en síðan við Suðurströndina og undir Eyjafjöllum fyrir hádegi.

Vegagerðin varar við því að búast megi við þungri færð og að jafnvel komi til lokana á vegum sunnan- og suðvestanlands á gamlársdag. Eins gæti færð spillst á nýársnótt.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×