Erlent

Segja yfir hundrað flugskeyti á lofti yfir Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld í Úkraínu segja hluta sprenginganna mega rekja til þess að loftvarnakerfi landsins séu að hitta eldflaugar Rússa.
Yfirvöld í Úkraínu segja hluta sprenginganna mega rekja til þess að loftvarnakerfi landsins séu að hitta eldflaugar Rússa. AP/Evan Vucci

Loftvarnaflautur eru sagðar hljóma víða um Úkraínu eins og stendur og þá hafa heyrst sprengingar í Kænugarði. Oleksiy Arestovyck, ráðgjafi Vólódímírs Selenskís, sagði í morgun að fleiri en 100 flugskeytum hefði verið skotið á loft af Rússum, í nokkrum bylgjum.

Sprengingar hafa heyrst víðar en í höfuðborginni, meðal annars í Odessa og Zhytomyr, en þær eru ekki endilega til marks um að flugskeytin hafi náð skotmarki sínu heldur getur einnig verið um að ræða hávaða frá loftvarnakerfum Úkraínumanna.

Óstaðfestar fregnir hafa borist af því að brot úr flugskeyti hafi lent á byggingu í Kænugarði.

Borgarstjórinn Vitali Klitschko hefur biðlað til fólks um að búa sig undir rafmagnsleysi með því að hlaða síma og annan rafeindabúnað og birgja sig upp af vatni.

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari, sem búsettur er í Kænugarði, segist hafa heyrt átta til tíu sprengingar í morgun.

„Flauturnar fóru af stað kl. 6 en þær fara bara einu sinni af stað á meðan á árás stendur og svo er fólk beðið um að vera í skjóli þangað til hættan er liðin hjá,“ segir hann.

Óskar segir að samkvæmt fréttum í Úkraínu hafi loftvarnakerfin náð að skjóta niður flestar flaugarnar.

Óstaðfestar fregnir hafa borist af því að drónar hafi verið sendir á loft í átt að höfuðborginni, frá Belarús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×