Fótbolti

Sjáðu markið: Richarli­s­on skoraði flottasta markið í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Flottasta mark HM í uppsiglingu.
Flottasta mark HM í uppsiglingu. Markus Gilliar/Getty Images

Síðara mark framherjans Richarlison í 2-0 sigri Brasilíu á Serbíu í fyrsta leik liðanna á HM í Katar hefur verið valið flottasta mark mótsins. Richarlison átti tvo af tíu flottustu mörkum mótsins.

HM í Katar lauk fyrir sléttri viku síðan þegar Argentína með Lionel Messi í fararbroddi varð heimsmeistari. Brasilíumaðurinn getur huggað sig við það að hann skoraði flottasta mark mótsins þó erkifjendur Brasilíu hafi orðið heimsmeistarar.

Hinn 25 ára gamli framherji skoraði þrjú mörk á mótinu. Þar af voru tvö einkar glæsileg en annað þeirra bar af.

Brasilía var 1-0 yfir gegn Serbíu þegar Vinicíus Junior óð inn á teig, hann gaf boltann á Richarlison, sem var með bakið í markið. Boltinn fór af varnarmanni svo fyrsta snerting framherjans var upp í loftið. Hann var fljótur að bregðast við, tók sér stöðu og klippti boltann stórkostlega í netið.

Markið hefur nú verið kosið besta mark HM en á vef FIFA má sjá tíu flottustu mörk mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×