Enski boltinn

Kærustuparið mætti á hækjum á BBC hófið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Beth Mead og Vivianne Miedema mættu báðar á hækjum á hófið en Beth fór síðan heim með verðlaun.
Beth Mead og Vivianne Miedema mættu báðar á hækjum á hófið en Beth fór síðan heim með verðlaun. Getty/Anthony Devlin

Knattspyrnukonurnar Vivianne Miedema og Beth Mead eru ekki bara tvær af bestu framherjum heims því þær eru líka í sambandi.

Það sem meira er að þær þurfa báðar að ganga um á hækjum þessa dagana eftir að hafa meiðst illa á hné í leikjum með Arsenal.

Landsliðsframherjarnir mættu því báðar á hækjum á BBC hófið í gær þar sem verðlaunað var fyrir íþróttaárið 2022 í Bretlandi. Beth Mead var síðan kjörin íþróttamaður ársins hjá BBC og enska kvennalandsliðið í fótbolta lið ársins.

Beth Mead var kjörin besti leikmaðurinn á EM í Englandi síðasta sumar auk þess að verða markadrottning mótsins þegar þær ensku urðu Evrópumeistarar.

Vivianne Miedema hafði orðið Evrópumeistari með Hollendingum á EM 2017 þar sem hún skoraði meðal annars tvívegis í úrslitaleiknum.

Mead sleit krossband í leik með Arsenal á móti Manchester United á Emirates leikvanginum í nóvember.

Miedema sleit síðan líka krossband í leik Arsenal á móti Lyon í Meistaradeildinni fyrr í þessum mánuði.

Mead var búin að skora 5 mörk í 7 leikjum með Arsenal á 2022-23 tímabilinu og 13 mörk í 18 landsleikjum með Englandi á árinu 2022.

Miedema var búin að skora 7 mörk í 15 leikjum með Arsenal á 2022-23 tímabilinu og 10 mörk í 11 landsleikjum með Hollandi á árinu 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×