Erlent

Einn úr á­höfn taí­lenska her­skipsins fannst á lífi

Kjartan Kjartansson skrifar
Einn sjóliða HTMS Sukhothai í Bangsaphan í gær.
Einn sjóliða HTMS Sukhothai í Bangsaphan í gær. AP/Anuthep Cheysakron

Björgunarlið fann einn sjóliða úr áhöfn taílensks herskips á lífi í gær, um hálfum sólarhring eftir að það sökk á aðfaranótt mánudags. Á þriðja tug manna er enn saknað en yfirvöld viðurkenna að ekki hafi verið nógu mörg björgunarvesti um borð í skipinu.

HTMS Sukhothai, 35 ára gömul korvetta, sökk með 105 manns um borð í stórsjó í Taílandsflóa á sunnudag. AP-fréttastofan segir að taílenski herinn hafi staðfest að 76 manns hafi verið bjargað, fimm hafi fundist látnir og 24 sé enn saknað.

Sjóliðinn og líkin fimm fundust um sextíu kílómetrum frá þeim stað þar sem skipið sökk. Hann sást fljótandi í sjónum um miðjan dag í gær. Flutningaskip sem átti leið hjá bjargaði honum úr sjónum en herfreigáta flytur hann nú í land. Ástand hans er sagt slæmt.

Vonir um að fleiri finnist á lífi fara nú þverrandi. Sjóherinn telur ólíklegt að nokkur gæti lifað lengur en tvo daga í sjónum. Fjögur stór herskip, flugvélar, þyrlur og drónar eru notaðir við leitina. Ekki hefur verið hægt að leita á minni fleyjum þar sem enn er vont í sjóinn á svæðinu.

Þeir sem komust lífs af hafa sagt taílenskum fjölmiðlum að ekki hafi verið nógu mörg björgunarvesti þar sem skipið var með gesti auk hefðbundinnar áhafnar. Herinn segir að vanalega séu 87 sjóliðar og foringjar um borð í skipinu. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×