Fótbolti

Aldrei fleiri mörk skoruð á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kylian Mbappe skoraði manna mest á HM, en franski framherjinn skoraði átta mörk.
Kylian Mbappe skoraði manna mest á HM, en franski framherjinn skoraði átta mörk. Marvin Ibo Guengoer - GES Sportfoto/Getty Images

Heimsmeistaramótið í Katar, sem lauk með sigri Argentínumanna síðastliðinn sunnudag, er það heimsmeistaramót sem hefur boðið upp á flest mörk í sögunni.

Alls urðu mörkin 172 talsins í þeim 64 leikjum sem voru spilaðir og hafa mörkin aldrei verið fleiri í 92 ára sögu heimsmeistaramótsins.

Tölfræðifyrirtækið Gracenote hefur haldið vel utan um alla tölfræði á mótinu, líkt og fyrirtækið hefur gert síðan á HM í Suður-Kóreu og Japan árið 2002.

Ef rýnt er betur í tölfræðina vekur það einnig athygli að aldrei hafa verið tekin færri skot á HM síðan fyrirtækið fór að halda utan um þá tölfræði, en samt fjölgar mörkunum. Árið 2014 var metár í skotum að marki á HM þar sem alls voru tekin 1.661 skot sem skiluðu 171 marki, en í ár voru tekin 1.458 skot sem skiluðu 172 mörkum.

Þá vekur kannski einnig athygli að þrátt fyrir þennan fjölda marka var þetta einnig það heimsmeistaramót sem jafnaði metið yfir flest markalaus jafntefli. Alls urðu sjö markalaus jafntefli á mótinu og var þetta fimmta heimsmeistaramótið sem býður upp á þann fjölda markalausra jafntefla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×