Fótbolti

Deschamps segir spurningar um endurkomu Benzema fáránlegar

Hjörvar Ólafsson skrifar
Didier Deschamps kvað niður sögusagnir þess efnis að Karim Benzema yrði í leikmannahópi Frakklands á morgun á blaðamannafundinum í dag. 
Didier Deschamps kvað niður sögusagnir þess efnis að Karim Benzema yrði í leikmannahópi Frakklands á morgun á blaðamannafundinum í dag.  Vísir/Gettty

Didier Deschamps, þjálfari franska karlalandsliðsins í fótbolta, sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir úrslitaleik heimsmeistaramótsins en þar mætir franska liðið því argentínska í Doha í Katar á morgun. Deschamps var meðal annars spurður hvort einhver möguleiki væri á að Karim Benzema yrði í leikmannahópi Frakka í þeim leik.

Þjálfari Frakklands sagði spurningar um mögulega endurkomu  Benzema, sem hefur ekkert leikið á mótinu til þessa vegna meiðsla aftan í læri, vera fáránlegar. Eftir sigur Frakklands gegn Marokkó var Deschamps spurður hvort einhver möguleiki væri á að Benzema myndi vera í hópnum í úrslitaleiknum. 

Deschamps vildi ekki svara spurningum um meiðsli Benzema á þeim tímapunkti. Þegar hann var svo spurður um málið á fundinum í dag sagði franski þjálfarinn. 

„Karim er á meiðslalistanum líkt og Lucas Hernandez og Christopher Nkunku. Ég er með leikmannahóp sem samanstendur af 24 leikmönnum sem eru ekki meiddir og ég einbeiti mér að því að stýra þeim þessa stundina. 

Ég er ekki að velta því fyrir mér hvort að fyrrverandi leikmenn eða meiddir leikmenn verði staddir á leikvanginum á meðan á leiknum stendur á morgun. Spurningar um þá leikmenn á þessum tímapunkti eru fáránlegar svo ekki sé fastar að orði kveðið," sagði Deschamps ákveðinn. 

Benzema er byrjaður að æfa með félagsliði sínu Real Madrid og virðist hafa jafnað sig á þeim meiðslum sem hann varð fyrir aftan í læri á æfingu með franska liðinu í undirbúningi liðsins fyrir heimsmeistaramótið.  

Orðrómur hefur verið um að samband Deschamps og Benzema sé ekki gott en franski landsliðsframherjinn gaf þeirri sögu byr undir báða vængi með Instagram-færslu sinni í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×