Fótbolti

Tryggðu sig áfram þótt ekki tækist að troða boltanum í markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindís Jane er komin í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.
Sveindís Jane er komin í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Andrea Staccioli/Getty Images

Sveindís Jane Jónsdóttir spilaði 75 mínútur í markalausu jafntefli Wolfsburg og Slavia Prag í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Úrslit kvöldsins þýða að Wolfsburg hefur endanlega tryggt sæti sitt í 8-liða úrslitum.

Sveindís Jane fékk tækifæri í byrjunarliði Wolfsburg en náði ekki að nýta tækifærið í kvöld. Það sama verður sagt um stöllur hennar en Wolfsburg náði ekki að nýta yfirburði sína. 

Tölfræði leiksins var hreint út sagt ótrúleg. Wolfsburg var með boltann 62 prósent af leiknum. Þá átti liðið 33 skot, þar af 13 á markið.

Í hinum leik B-riðils vann Roma 5-0 sigur á á St. Polten eftir að íhugað var að stöðva leikinn vegna rigningar.

Aðeins var eitt mark skorað í fyrri hálfleik en undir lok síðari hálfleiks opnuðust flóðgáttir. Annað mark Roma kom á 82. mínútu og í kjölfarið fylgdu þrjú mörk. Valentina Giacinti, Benedetta Glionna og Manuela Giugliano (2) með mörkin.

Staðan í B-riðli er þannig að Wolfsburg og Roma eru komin áfram. Enn á þó eftir að útkljá hvort liðið endar á toppi riðilsins en Wolfsburg er sem stendur með 11 stig en Roma einu stigi minna.

Stórleikur kvöldsins var svo viðureign París Saint-Germain og Real Madríd í A-riðli. Elisa De Almeida kom PSG yfir eftir stundarfjórðung. Var það eina mark fyrri hálfleiks.

Kadidiatou Diani tvöfaldaði forystu PSG með marki úr vítaspyrnu þegar klukkustund var liðin og fór það langleiðina með að tryggja sigurinn.

Gestirnir frá Madríd minnkuðu muninn undir lok leiks, Athenea del Castillo með markið. Fleiri urðu mörkin þó ekki og PSG er komið áfram í 8-liða úrslit þökk sé sigri kvöldsins. Berglind Björg Þorvaldsdóttir var ekki í leikmannahópi PSG í kvöld.

Hinn leikur A-riðils fór fram í Albaníu þar sem Englandsmeistarar Chelsea voru í heimsókn. Lundúnaliðið átti ekki í miklum vandræðum og vann þægilegan 4-0 sigur. Sophie Ingle, Fran Kirby, Kateřina Svitková og Maren Mjelde með mörkin.

Chelsea er á toppi riðilsins með 13 stig þegar ein umferð er eftir. Þar á eftir kemur PSG með 10 stig og Real með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×