Fótbolti

„Eins og staðan er núna þá verð ég á­fram en maður veit aldrei hvað gerist“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Sigurðsson var frábær með Norrköping á nýafstaðinni leiktíð.
Arnór Sigurðsson var frábær með Norrköping á nýafstaðinni leiktíð. Norrköping

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson lék frábærlega með Norrköping á nýafstöðu tímabili í Svíþjóð. Hann kom á láni til félagsins frá CSKA Moskvu og hefur lítinn áhuga á að fara aftur til Moskvu eins og staðan er í dag. Arnór var meðal gesta í útvarpsþættinum Fótbolti.net sem er alla laugardaga á X-977.

Arnór gekk til liðs við Norrköping um mitt síðasta sumar þegar sænska úrvalsdeildin var tæplega hálfnuð. Arnór þekkir vel til hjá sænska liðinu en hann lék með því áður en hann var seldur til Moskvu árið 2018.

Eftir að Rússland réðst inn í Úkraínu ákvað Arnór að yfirgefa Moskvu. Eftir að stríðið hófst gaf Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, út reglugerð þess efnis að erlendir leikmenn í Rússlandi gætu fryst samninga sína og farið á láni.

„CSKA gat í rauninni ekkert gert, geta ekki sagt neitt út af þessu FIFA ákvæði. Að lokum var þetta mín ákvörðun,“ segir Arnór sem sneri aftur til Svíþjóðar í von um að finna leikgleðina að nýju eftir að hafa lítið spilað með CSKA Moskvu misserin þar á undan.

Segja má að hann hafi komið inn af krafti en á endanum lék hann 11 leiki í sænsku úrvalsdeildinni. Í þeim skoraði hann sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar.

Stefnir á að vera áfram í Svíþjóð

„Aðalmálið fyrir mig var að fara þangað sem ég vissi að ég myndi fá að spila. Ég vissi hvað ég væri að fara inn í þegar ég ákvað að fara aftur til Norrköping. Ég er mjög ánægður að hafa komið hingað.“

„Ég er með lánssamning til 30. júní og mér líður mjög vel hjá Norrköping. Persónulega gekk mér mjög vel og líður mjög vel. Eins og staðan er núna þá verð ég áfram en maður veit aldrei hvað gerist.“

„Ekki svo ég viti. Í rauninni veit ég ekki neitt með það. Umboðsmennirnir mínir sjá um það,“ sagði Arnór um þá orðróma að Norrköping væri að reyna kaupa hann af CSKA. Samningur hans í Rússlandi rennur út næsta sumar og þá verður hann laus allra mála.

Arnór er spenntur fyrir komandi tímabili og segir að Norrköping ætli að styrkja sig. Segja má að um sannkallað Íslendingalið sé að ræða en þeir Arnór Ingvi Traustason, Ari Freyr Skúlason, Andri Lucas Guðjohnsen og Jóhannes Kristinn Bjarnason eru allir á mála hjá félaginu sem stendur.

Hlusta má á útvarpsþáttinn í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×