Fótbolti

Brasilísk goðsögn heldur með Messi á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rivaldo með heimsbikarinn fyrir tuttugu árum en við hlið hans er Ronaldo. Suður Ameríku þjóð hefur ekki unnið hann síðan.
Rivaldo með heimsbikarinn fyrir tuttugu árum en við hlið hans er Ronaldo. Suður Ameríku þjóð hefur ekki unnið hann síðan. Getty/Mark Leech

Svo mikið er Lionel Messi æðið í heiminum að Brasilíumenn eru líka farnir að halda með honum í úrslitaleiknum á sunnudaginn.

Brasilíska goðsögnin Rivaldo gekk svo langt að hann lýsti yfir stuðningi við Messi og argentínska á samfélagsmiðlum sínum.

Argentína mætir Frakklandi í úrslitaleiknum á sunnudaginn kemur. Frakkar hafa titil að verja en Argentínumenn hafa ekki orðið heimsmeistarar síðan 1986.

Evrópuþjóðir hafa unnið heimsmeistaratitilinn í síðustu fjögur skipti eða allar götur síðan Rivaldo hjálpaði Brasilíu að verða heimsmeistari árið 2002.

„Við eigum ekki lengur möguleika á því að Brasilía eða Neymar verði í þessum úrslitaleik HM svo ég held með Argentínu. Engin orð til að lýsa frammistöðu þinni Lionel Messi. Þú hefur átt áður skilið að verða heimsmeistari en guð veit allt og hann mun krýna þig á sunnudaginn,“ skrifaði Rivaldo.

„Þú átt skilið að vinna þennan titil vegna þess hvernig manneskja þú ert og fyrir allan þann frábæra fótbolta sem þú hefur alltaf spilað. Ég tek hattinn ofan fyrir þér. Megi guð blessa þig,“ skrifaði Rivaldo eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×