Fótbolti

24 ára maður dó inn á leikvangnum sem hýsir úrslitaleikinn á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fólk fyrir utan Lusail leikvanginn en hann hýsir úrslitaleikinn á sunnudaginn kemur.
Fólk fyrir utan Lusail leikvanginn en hann hýsir úrslitaleikinn á sunnudaginn kemur. Getty/Alex Pantling

Öryggisvörður lést eftir að hafa fallið inn á Lusail leikvanginum um síðustu helgi en á úrslitaleikur HM mun fara fram á vellinum á sunnudaginn kemur.

Öryggisvörðurinn var á vakt á vellinum þegar atvikið gerðist. Móthaldarar staðfestu fréttirnar.

Læknalið leikvangsins komu strax á staðinn og reyndu að bjarga lífi mannsins. Hann var fluttur á Hamad sjúkrahúsið í sjúkrabíl en ekki tókst að bjarga lífi hans.

CNN segir að maðurinn hafi verið 24 ára gamall og frá Afríkuríkinu Kenía. Aðstandendur hans hafa fengið að vita um örlög hans.

Mótshaldarar segjast ætla að rannsaka kringumstæður slyssins sem algjör forgangsmál og munu gefa frekari upplýsingar þegar þeirri rannsókn lýkur. FIFA gaf einnig frá sér yfirlýsingu um að sambandið væri í stanslausu sambandi til að fá fyrstu fréttir af málinu.

Maðurinn hét John Njau Kibue og dánardagur hans var 10. desember síðastliðinn.

Í síðustu viku hófu Katarbúar aðra rannsókn eftir að filippseyskur maður lést þegar hann var við vinnu á æfingavelli fyrir liðin á HM.

Lusail leikvangurinn var byggður sérstaklega fyrir heimsmeistaramótið en hann var vígður í nóvember í fyrra. Leikvangurinn tekur tæplega 89 þúsund manns.

Úrslitaleikurinn verður á milli Argentínu og Frakklands og fer hann fram sunnudaginn 18. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×