Fótbolti

Eigin­kona Wahl vill að sam­særis­kenningarnar hætti eftir að dánar­or­sökin var stað­fest

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grant Wahl var meðal þeirra sem var heiðraður fyrir HM þar sem hann hafði fjallað um 8 eða fleiri heimsmeistaramót á ferli sínum sem blaðamaður.
Grant Wahl var meðal þeirra sem var heiðraður fyrir HM þar sem hann hafði fjallað um 8 eða fleiri heimsmeistaramót á ferli sínum sem blaðamaður. Brendan Moran/FIFA

Grant Wahl, bandaríski blaðamaðurinn sem lést nýverið á leik Argentínu og Hollands á HM sem nú fer fram í Katar, var með rifu í ósæð sem liggur frá hjartanu [e. ascending aorta]. Þetta staðfesti fjölskylda Wahl á miðvikudag.

Wahl hneig niður á leik Argentínu og Hollands og var úrskurðaður látinn við komuna á sjúkrahús. Samsæriskenningar fóru á flug en Wahl hafði verið tekinn höndum fyrr á mótinu þegar hann klæddist bol með regnboga á.

Nú hefur dánarorsök Wahl verið staðfest. Hann fékk slagæðagúlp í ósæð sem liggur frá hjartanu, við það kom rifa á æðina sem dró hann til dauða. Þetta kom í ljós þegar lík hans var krufið í New York.

Eftir að Wahl lést fóru margar samsæriskenningar á kreik. Ein sneri að bóluefni við Covid-19 á meðan önnur sneri að ríkisstjórn Katar en skömmu áður en Wahl lést hafði hann skrifað grein um dauða verkamanna þar í landi. Þá hjálpaði ekki að bróðir hans sagðist viss um að Grant hefði verið drepinn.

Dr. Celine Gounder, eiginkona Wahl, segist finna fyrir smá huggun vitandi að eiginmaður hennar hafi ekki fundið fyrir sársauka er hann lést. Hún vonast til að þessar nýju upplýsingar endi alla orðrómana sem hafa verið á kreiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×