Fótbolti

Blaða­maður sem mót­mælti regn­boga­reglum á HM er látinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Grant Wahl starfaði sem íþróttablaðamaður.
Grant Wahl starfaði sem íþróttablaðamaður. Getty/Doug Zimmerman

Bandaríski blaðamaðurinn Grant Wahl er látinn, 49 ára að aldri. Hann var staddur í Katar til að færa fréttir af Heimsmeistaramótinu í fótbolta sem fer fram þar um þessar mundir. Hann hneig niður er hann var að fylgjast með leik Argentínu og Hollands í gær. 

Wahl hafði vakið athygli fyrr á mótinu er hann mætti á leik Bandaríkjanna og Wales í bol með regnboga í kringum mynd af fótbolta til stuðnings hinsegin fólks. Hann mátti ekki fara inn á völlinn í bolnum og var í haldi lögreglunnar í þrjátíu mínútur eftir atvikið. 

Á þriðjudaginn var Wahl gestur í hlaðvarpi þar sem hann sagðist hafa fengið lungnabólgu nokkrum dögum áður og því þurft að taka sér smá hlé frá því að skrifa um leikina á mótinu. 

Það var síðan á meðan hann var að fylgjast með leik Argentínu og Hollands í gærkvöldi sem hann hneig niður á fjölmiðlasvæðinu. Viðbragðsaðilar reyndu að bjarga honum og var hann fluttur á nærliggjandi spítala. Þar lét hann lífið en dánarorsök hefur ekki verið gerð opinber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×