Frakkland í úrslit á nýjan leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frakkland fagnar síðara marki sínu í kvöld.
Frakkland fagnar síðara marki sínu í kvöld. Catherine Ivill/Getty Images

Marokkó hefur komið gríðarlega á óvart og vann Portúgal 1-0 í átta liða úrslitum. Liðið lenti hins vegar á vegg gegn Frakklandi í kvöld. Vinstri bakvörðurinn Theo Hernández skoraði eftir aðeins fimm mínútna leik og virtist sem Frakkar myndu vinna stórsigur miðið við upphafsmínútur leiksins.

Kylian Mbappé átti skot eftir góðan undirbúning Antoine Griezmann. Skotið fór af varnarmanni og barst boltinn þaðan til Hernández sem sýndi mögnuð tilþrif og klippti boltann í netið. 

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks en Frakkar gerðu sig ekki líklega til að bæta við marki eftir að þeir komust yfir. Marokkó vaknaði til lífsins þegar líða tók á fyrri hálfleik en fengu engin alvöru færi.

Síðari hálfleikur var stál í stál en lítið var um opin marktækifæri. Það var svo á 79. mínútu sem varamaðurinn Randal Kolo Muani gulltryggði sigurinn og sæti í úrslitum. Hann hafði aðeins verið inn á vellinum í 44 sekúndur þegar Mbappé lék frábærlega á varnarmenn Marokkó og átti skot sem fór af varnarmanni.

Aftur barst boltinn á fjær og Muani gat ekki annað en skilað boltanum í netið. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins. Marokkó var næstum búið að minnka muninn í uppbótartíma en Jules Koundé bjargaði á línu. 

Frakkland er þar á með á leiðinni í úrslit þar sem Argentína bíður, leikurinn fer fram 18. desember. Degi fyrr mætast Króatía og Marokkó í leik um bronsið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira