Fótbolti

Lionel Messi: Hjálpaði okkur að tapa fyrsta leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar sætinu í úrslitaleik HM í Katar eftir sigurinn á Króatíu í gær.
Lionel Messi fagnar sætinu í úrslitaleik HM í Katar eftir sigurinn á Króatíu í gær. AP/Natacha Pisarenko

Lionel Messi hrósaði argentínska landsliðinu fyrir að hafa staðist erfitt próf eftir tap á móti Sadí Arabíu í fyrsta leik heimsmeistaramótsins í Katar.

Nú nokkrum vikum síðar er argentínska landsliðið komið alla leið í úrslitaleik heimsmeistaramótsins þar sem liðið mætir annaðhvort Frakklandi eða Marokkó næsta sunnudag.

Hinn 35 ára gamli Messi skoraði fyrsta markið í 3-0 sigri á Króatíu í undanúrslitunum, átti þátt í undirbúningi annars marksins og lagði síðan upp þriðja markið á frábæran hátt. Messi er kominn með fimm mörk og þrjár stoðsendingar á mótinu.

„Tapið í fyrsta leiknum var mikið áfall fyrir okkur alla af því að við höfðum ekki tapað í 36 leikjum í röð,“ sagði Lionel Messi.

„Það var mikið sjokk að byrja HM svona af því að við trúðum því ekki að við gætum tapað á móti Sádí Arabíu. Þetta var því mjög erfitt próf fyrir allt liðið en við sönnuðum hversu sterkir við erum,“ sagði Messi.

„Við höfum unnið hina leikina. Þeir voru samt allir mjög erfiðir því hver einn og einasti þeirra hefur verið eins og úrslitaleikur því annars hefðum við lent í miklum vandræðum,“ sagði Messi.

„Okkur hefur nú tekist að vinna fimm úrslitaleiki í röð og ég vona að við höldum því áfram í lokaleiknum,“ sagði Messi.

„Við höfðum alltaf trú á þessu af því við vissum hvað býr í þessu liði. Við töpuðum fyrsta leiknum á litlum atriðum og það hjálpaði okkur að verða sterkari. Það hjálpaði okkur að tapa fyrsta leiknum,“ sagði Messi.

„Ég naut þessara stundar mjög mikið. Ég er mjög ánægður, að ná því að enda HM-feril minn á því að spila lokaleikinn í úrslitaleiknum. Það eru mörg ár í næsta mót og ég tel mig ekki ná því. Það er því eins gott og það gerist að geta klárað þetta svona,“ sagði Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×