Fótbolti

Ein besta knatt­spyrnu­kona Svía setur skóna upp á hillu og gerist lög­reglu­kona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nilla Fischer var lengi fyrirliði sænska landsliðsins og hér heilsar hún Katrínu Jónsdóttur, þáverandi fyrirliða Íslands, fyrir leik þjóðanna.
Nilla Fischer var lengi fyrirliði sænska landsliðsins og hér heilsar hún Katrínu Jónsdóttur, þáverandi fyrirliða Íslands, fyrir leik þjóðanna. Getty/Vasco Celio

Sænska knattspyrnukonan Nilla Fischer hefur spilað sinn síðasta fótboltaleik á ferlinum en hún segir að skrokkurinn sinn þoli ekki meira.

Eftir magnaðan fótboltaferil verður spennan örugglega ekkert minna á nýjum starfsvettvangi. Hún ætlar nefnilega að gerast lögreglukona.

„Þetta er ógnvekjandi en um leið spennandi áskorun,“ sagði Nilla Fischer en Aftonbladet segir frá.

Fischer spilaði alls 189 landsleiki fyrir Svía og skoraði í þeim 23 mörk en hún endaði landsliðsferil sinn fyrir ári síðan.

Fischer spilaði oftast sem miðvörður eða afturliggjandi miðjumaður en var ávallt skeinuhætt í föstum leikatriðum.

Stærstan hluta síns ferils þótti Fischer vera í hóp bestu varnarmanna heims og hún vann titla með sínum félagsliðum.

Síðustu árin spilaði Fischer með Linköping en hún var lengi samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá þýska stórliðinu VfL Wolfsburg. Þá spilaði hún einnig með Ásthildi og Þóru Björg Helgadætrum hjá LdB FC Malmö.

„Það er kominn tími til að kveðja fyrstu ástina. Þetta hefur verið svo frábær lífsreynsla í svo mörg ár. Takk fyrir allt, skrifaði Nilla Fischer á samfélagsmiðla.

Fram undan er nám við lögregluskólann hjá hinnu 38 ára gömlu Nillu.

„Ég þekki það vel að vinna í hópi og ég er vön æfingum og líkamlega þættinum. Ég hef aftur á móti ekkert forskot í bóknáminu enda hef ég ekki lært neitt síðan ég var í gagnfræðisskóla. Vonandi læri ég,“ sagði Fischer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×