Fótbolti

Leikmaður í Íran á yfir höfði sér dauðarefsingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Knattspyrnumaðurinn Amir Nasr-Azadani er í mjög slæmri stöðu í heimalandi sínu.
Knattspyrnumaðurinn Amir Nasr-Azadani er í mjög slæmri stöðu í heimalandi sínu. Twitter/@FIFPRO

Íranski knattspyrnumaðurinn Amir Nasr-Azadani er einn þeirra sem tók þátt í mótmælunum í Íran þar sem hann og landar hans hafa barist fyrir réttindum kvenna í landinu.

Alþjóðasamband atvinnuknattspyrnumanna, FIFPRO, vakti athygli á stöðu leikmannsins og kallaði eftir því að leikmaðurinn verði látinn laus.

„FIFPRO er í áfalli og misboðið yfir fréttum af því að atvinnuknattspyrnumaðurinn standi frammi fyrir dauðarefsingu í Íran eftir að hafa barist fyrir réttindum kvenna og almenni frelsi í landinu,“ segir í yfirlýsingu samtakanna á samfélagsmiðlum.

„Við stöndum sameinuð með Amir og köllum eftir tafarlausri brottnámi refsingarinnar.“

Þúsundir manna hafa mótmælt núverandi stjórnarfari í Íran svo vikum skipti eftir að ung kona að nafni Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi.

Þingheimur hefur hvatt dómarastétt landsins til þess að beita mótmælendur meiri hörku og sýna enga vægð. Írönsk stjórnvöld vilja að þeir verði kærðir fyrir „fjandskap gegn Guði“ ásamt „spillingu á jörðu“ en þau brot beri með sér dauðadóm.

Nasr-Azadani er 26 ára gamall varnarmaður sem hefur spilað með írönsku félögunum Rah-Ahan, Tractor og Gol-e Rayhan á sínum ferli.

Samkvæmt frétt IranWire þá kom Nasr-Azadani ásamt tveimur öðrum fram í írönsku sjónvarpi þar sem þeir voru látnir lesa þvingaða játningu.

Búist er við því að íranska dómskerfið dæmi Nasr-Azadani til dauða með hengingu en hann er ásakaður fyrir að bera ábyrgð á dauða ofurstans Esmaeil Cheraghi og tveggja meðlima í Basij hernum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×