Fótbolti

Blaðakona í lögregluvernd eftir að hafa gagnrýnt Granit Xhaka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serbar voru allt annað en sáttir við Granit Xhaka sem er af albönskum ættum en spilar fyrir Sviss. Blaðakonan Zana Avdiu gagrýndi svissneska landsliðsmanninn opinberlea.
Serbar voru allt annað en sáttir við Granit Xhaka sem er af albönskum ættum en spilar fyrir Sviss. Blaðakonan Zana Avdiu gagrýndi svissneska landsliðsmanninn opinberlea. Samsett/Facebook&Getty

Blaðamaðurinn Zana Avdiu gagnrýndi svissneska landsliðsmanninn Granit Xhaka fyrir hegðun sína í leik á HM og hefur síðan mátt lifa við hótanir og áhyggjur um öryggi sitt.

„Ég hef fengið skilaboð með alvöru hótunum gegn mér og minni fjölskyldu,“ sagði Zana Avdiu við Blick.

Það gekk mikið á í leik Sviss og Serbíu en Svisslendingar unnu leikinn á endanum 3-2.

Granit Xhaka fékk athygli fyrir hegðun sína í leiknum en þessi þrítugi leikmaður Arsenal og svissneska landsliðsins greip um hreðjarnar fyrir framan varamannabekk Serba.

Atvikið fékk mikla umfjöllun í Sviss og umrædd Zana Avdiu gagnrýndi landsliðsmanninn.

„Það er skömm að þessari hegðun Xhaka. Svona haga sér bara götustrákar,“ skrifaði Zana Avdiu á samfélagsmiðla sína.

Hún kom seinna í sjónvarpssal og hélt áfram að gagnrýna Xhaka. „Þetta látbragð er tákn fyrir kynferðisofbeldi,“ sagði Avdiu meðal annars.

Ragip Xhaka, faðir Granit Xhaka, var líka í sjónvarpsþættinum en hann talaði þar í gegnum síma.

Hann sagði meðal annars að blaðakonan ætti að passa sig á því sem hún segði. Hún spurði hvað myndi þá gerast en Ragip sagðist þá ætla að segja henni það seinna.

Taulant, bróðir Granit, sendi henni líka skilaboð á Instagram. Blick segir frá því að Zana Avdiu hafi þurft að lifa við lögregluvernd í viku eftir að hafa fengið ítrekaðar hótanir. Alls fékk hún ellefu þúsund hatursfull skilaboð.

„Ég fengið alvöru hótanir gegn mér og minni fjölskyldu. Þeir segja að það ætti að drepa mig, ég ætti að flýja til Serbíu eða það ætti að nauðga mér. Ég hef tilkynnt yfir tvö hundruð skilaboð til lögreglunnar og það hafa þegar menn verið handteknir,“ sagði Avdiu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×