Fótbolti

„Við erum Rocky Bal­boa þessa heims­meistara­móts“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Marokkó tolleruðu þjálfara sinn Walid Regragui eftir sigurinn á Portúgal í átta liða úrslitunum.
Leikmenn Marokkó tolleruðu þjálfara sinn Walid Regragui eftir sigurinn á Portúgal í átta liða úrslitunum. AP/Alessandra Tarantino

Marokkó hefur lokað nær öllum leiðum fyrir andstæðinga sína á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Katar og varð, eftir sigra á Spáni og Portúgal, fyrsta Afríkuþjóðin til að komast alla leið í undanúrslitin á HM.

Leikmenn mótherja Marokkó hafa enn ekki náð að skora sjálfir á móti Marokkó á mótinu en eina markið sem liðið hefur fengið á sig var sjálfsmark í leik á móti Kanada.

Marokkó liðið spilar samheldinn og skipulagðan varnarleik og ástríðan skín úr augum allra leikmanna liðsins.

Liðið tekur á sig öll högg og allar tilraunir mótherjanna og stendur enn uppi í leikslok. Landsliðsþjálfarinn líkti liðinu líka við einn þekktasta lítilmagna kvikmyndasögunnar.

„Við erum Rocky Balboa þessa heimsmeistaramóts,“ sagði Walid Regragui, þjálfari Marokkó, eftir sigurinn á Portúgal í átta liða úrslitunum.

„Við erum liðið sem allir elska á þessu heimsmeistaramóti af því að við erum að sýna heiminum að þú getur náð árangri þótt þú hafi ekki eins mikla hæfileika eða eins mikla peninga,“ sagði Regragui.

„Þetta er samt ekkert kraftaverk. Margir munu halda því fram, sérstaklega í Evrópu, en við höfum núna unnið Belgíu, Spán og Portúgal án þess að fá á okkur mark,“ sagði Regragui.

„Við höfum gert okkar fólk stolt sem og okkar fólk frá okkar álfu og aðra líka. Þegar þú horfir á Rocky myndirnar þá heldur þú með Rocky Balboa,“ sagði Regragui.

Marokkó spilar við Frakklandi í undanúrslitunum á HM og sá leikur fer fram á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×