Innlent

Við­skipta­vinur lagði sig í mikla hættu við álfa­veiðar

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Maðurinn hafði klifrað upp á handrið við rúllustiga og lagt sig í mikla hættu, þar sem hátt fall var niður.
Maðurinn hafði klifrað upp á handrið við rúllustiga og lagt sig í mikla hættu, þar sem hátt fall var niður.

Nýr jólaálfur Kringlunnar hefur komið sér í ótrúlegustu aðstæður á hverjum degi. Viðskiptavinir eru hvattir til að finna álfinn og taka mynd af honum til að eiga möguleika á að vinna sér inn glaðning. Í dag kom viðskiptavinur sér í mikla hættu þegar hann misskildi leikreglur og hélt að ætti að ná í álfinn.

Álfurinn, sem hefur fengið nafnið Kátur, er falinn á nýjum stað í Kringlunni á hverjum degi. Í dag fengu öryggisverðir tilkynningu um mann sem hafði klifrað upp á handrið við rúllustiga og lagt sig í mikla hættu, þar sem hátt fall var niður.

Í ljós kom að maðurinn hafði misskilið reglurnar og haldið að það ætti að klófesta álfinn sem hékk í skilti. Þegar öryggisverði bar að hafði manninum tekist að ná álfinum niður og hafði skundað með hann á þjónustuborðið þar sem hann bjóst við verðlaunum fyrir afrekið. Að sögn Baldvinu Snælaugsdóttur, markaðsstjóra Kringlunnar fékk maðurinn kærar þakkir en um leið útskýringar á leikreglum og að sjálfsögðu glaðning.

Í tilkynningu sem Kringlan sendi frá sér í kjölfar atviksins kemur fram að þau ítreki að „finnir þú Kát í dag eða næstu daga, EKKI reyna að ná honum heldur taktu mynd og sendu okkur.“

Meðfylgjandi myndir eru frá viðskiptavinum Kringlunnar sem fundið hafa furðuleg uppátæki Káts.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×