Fótbolti

Van Gaal kokhraustur: „Ekki erfitt að stöðva Messi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Louis van Gaal hefur farið á kostum á blaðamannafundum á HM í Katar.
Louis van Gaal hefur farið á kostum á blaðamannafundum á HM í Katar. getty/Sebastian Frej

Það vantar sjaldan gorgeirinn í Louis van Gaal, þjálfara hollenska fótboltalandsliðsins. Fyrir leikinn gegn Argentínu sagði hann að það væri lítið mál að finna lausnir við Lionel Messi, einum besta fótboltamanni allra tíma.

Holland og Argentína mætast í átta liða úrslitum HM í Katar í kvöld. Eins og við mátti búast hefur umræðan fyrir leik að stóru leyti snúist um Messi sem hefur skorað þrjú mörk á HM. Van Gaal telur sig vera með svörin við því hvernig eigi að stöðva argentínska snillinginn.

„Við ætlum ekki að ljóstra upp um neitt. Það væri mjög heimskulegt af okkur. En það er ekki svo erfitt að finna lausnir á því hvernig á að stöðva hann,“ sagði Van Gaal.

„Þú þarft að hindra hann og loka á svæði svo hann geti ekki fengið boltann. En ég sé ekki að það eigi að valda okkur of miklum vandræðum.“

Öfugt við Argentínumenn eru Hollendingar ósigraðir á HM. Raunar hafa þeir ekki tapað leik síðan Van Gaal tók við þeim í þriðja sinn í fyrra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.