Þessi 28 ára gamli leikmaður Chelsea flaug heim til Englands síðastliðinn sunnudag eftir að brotist var inn á heimili hans og fjölskyldu hans. Hann flaug því heim til að hlúa að börnum sínum og um tíma var óvíst hvort hann myndi leika meira á þessu heimsmeistaramóti.
Fyrr í dag bárust þó fréttir af því að þessi reynslumikli leikmaður væri að leita leiða til þess að geta snúið aftur á HM. Nú hefur það verið staðfest að Sterling muni snúa aftur til Katar og verði með Englendingum þegar liðið mætir Frökkum í átta liða úrslitum næstkomandi laugardag.
Sterling á að baki 81 leik fyrir enska landsliðið þar sem hann hefur skorað 20 mörk. Hans seinasta mark fyrir England kom í 6-2 sigri liðsins gegn Íran í fyrsta leik Englands í riðlakeppninni. Þá var hann einnig í byrjunarliðinu þegar England og Bandaríkin gerðu markalaust jafntefli í næsta leik, en var svo ónotaður varamaður í 3-0 sigri liðsins gegn Wales.
Sterling var hins vegar floginn heim áður en Englendingar mættu Senegal í 16-liða úrslitum, en verður mættur aftur á laugardaginn.