Erlent

Faðir tók morðingja sonar síns af lífi í opinberri aftöku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sjaríalög voru aftur tekin upp í Afganistan fyrir nokkrum vikum. Rúmt ár er liðið frá því að Bandaríkjamenn og annað herlið erlendra ríkja yfirgáfu landið.
Sjaríalög voru aftur tekin upp í Afganistan fyrir nokkrum vikum. Rúmt ár er liðið frá því að Bandaríkjamenn og annað herlið erlendra ríkja yfirgáfu landið. epa

Talsmaður Talíbana í Afganistan segir föður fórnarlambs morðingja, hafa tekið morðingjann af lífi í opinberri aftöku á íþróttaleikvangi. Fjöldi áhorfenda var viðstaddur, þeirra á meðal leiðtogar Talíbana.

Um er að ræða fyrstu aftökuna sem fer fram opinberlega eftir að sjaríalög voru innleidd á ný. Dómurum er nú frjálst, og jafnvel skylt, að dæma menn til refsinga á borð við opinberar aftökur, limlestingar og grýtingar.

Samkvæmt talsmanninum, Zabihullah Mujahid, þá voru nokkrir hæstaréttardómarar viðstaddir aftökuna, yfirmenn hernaðarmála og háttsettir ráðherrar. Þeirra á meðal voru dóms- og utanríkisráðherrar ríkisstjórnar Talíbana.

Maðurinn sem tekinn var af lífi hét Tajmir en hann hafði verið fundinn sekur um að hafa banað manni að nafni Mustafa fyrir fimm árum. Það var faðir Mustafa, Ghulam Sawar, sem framkvæmdi aftökuna á Tajmir með byssukúlu.

Móðir Mustafa sagði í samtali við BBC að leiðtogar Talíbana hefðu farið þess á leit við hana að hún fyrirgæfi Tajmir en hún hefði krafist þess að hann yrði tekinn af lífi. Fólk ætti að láta sér aftöku hans að kenningu verða.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segist hafa djúpar áhyggjur af fregnunum og hefur kallað eftir því að aftökur í Afganistan verði stöðvaðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×