Varaforseti hans, Dina Boluarte er tekin við og verður þar með fyrsti kvenforseti Perú. Fyrr um daginn hafði Castillo reynt að leysa upp þing þjóðarinnar og koma á neyðarstjórn í landinu. Þingmenn virtu þetta að vettugi og ákærðu hann í staðinn og varaforsetinn sór síðan embættiseið strax í kjölfarið.
Fréttir frá Perú greina frá því að forsetinn fyrrverandi hafi verið á leið í sendiráð Mexíkó þegar hann var handtekinn. Dina Boluarte lýsti því síðan yfir í nótt að hún myndi sitja út kjörtímabil fyrri forseta, eða allt til ársins 2026.
Ákvörðun Castillo um að reyna að leysa upp þingið kom þingmönnum og ráðherrum í opna skjöldu en hann vildi meina að þetta væri krafa frá almenningi vítt og breytt um landið.
Mikill pólitískur órói hefur verið í Perú síðustu misserin og margir forsetar hafa gegnt embættinu. Til að mynda reyndu þrír sig við starfið á aðeins fimm dögum árið 2020.