Fótbolti

Brynjar Björn rekinn þrátt fyrir að halda Ör­gryt­e uppi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brynjar Björn stýrði HK áður en hann tók við Örgryte.
Brynjar Björn stýrði HK áður en hann tók við Örgryte. Vísir/Vilhelm

Brynjar Björn Gunnarsson hefur verið sagt upp störfum sem þjálfari Örgryte í sænsku B-deildinni í fótbolta. Hann tók við liðinu í maí síðastliðnum en er nú atvinnulaus.

Brynjar Björn var þjálfari HK í Lengjudeildinni í upphafi sumars þegar Örgryte hafði samband. Liðið var á botni B-deildarinnar í Svíþjóð og í tómu tjóni. Markmiðið var því einfalt; halda liðinu í deildinni.

Á endanum kom Brynjar Björn liðinu upp í 13. sæti sem þýddi að það fór í umspil við Sandviken um sæti í B-deildinni að ári. Örgryte vann í tveggja leikja einvígi og hélt sæti sínu, þrátt fyrir það ákváðu forráðamenn félagsins að láta Brynjar Björn taka poka sinn.

„Ég er stoltur af mínu framlagi til félagsins og Örgryte verður alltaf í hjarta mínu. Það voru forréttindi að þjálfa þetta lið,“ segir Brynjar Björn á vefsíðu félagsins.

Örgryte hefur þegar ráðið nýjan þjálfara. Sá heitir Jeffrey Aubynn og var áður aðstoðarþjálfari stórliðsins Malmö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×