Fótbolti

Forseti PSG: Höfum áhuga á Jude Bellingham en ekki Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham eftir einn af leikjum enska landsliðsins á heimsmeistaramótinu.
Jude Bellingham eftir einn af leikjum enska landsliðsins á heimsmeistaramótinu. AP/Luca Bruno

Allt lítur út fyrir að Paris Saint-Germain ætli að blanda sér af alvöru í kapphlaupið um enska landsliðsmanninn Jude Bellingham.

Borussia Dortmund mun selja Bellingham til hæstbjóðanda í sumar og það er óhætt að segja að þessi nítján ára miðjumaður hafi hækkað vel í verði með frábærri frammistöðu sinni á HM í Katar.

Liverpool hefur verið í forystunni í Bellingham kapphlaupinu en Chelsea, Manchester United, Manchester City og Real Madrid eru einnig mjög áhugasöm.

Nú hefur PSG bæst í kapphlaupið ef marka má viðtal við forseta félagsins, Nasser Al-Khelaifi.

„Þvílíkur leikmaður. England er heppið að hafa hann. Hann er enn af bestu leikmönnum mótsins,“ sagði Nasser Al-Khelaifi við Sky Sports.

„Það magnað að sjá hann spila svona vel á sínu fyrsta heimsmeistaramóti, rólegur, yfirvegaður og fullur sjálfstrausts,“ sagði Al-Khelaifi.

„Það vilja allir fá hann. Ég ætla ekki að fela áhuga okkar en ég ber virðingu fyrir því að hann er hjá sínu félagi og ef við viljum ræða við hann þá munum við tala fyrst við félagið,“ sagði Al-Khelaifi.

PSG hefur ekki áhuga á að semja við Cristiano Ronaldo.

„Við erum með Messi, Neymar og Mbappe og það væri mjög erfitt að bæta honum við. Ég óska honum samt alls hins besta. Hann er frábær og enn stórkostlegur leikmaður,“ sagði Al-Khelaifi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.