Innlent

Fagnar samningi SGS og vonar að hann ryðji brautina fyrir aðra

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vonar að nýr kjarasamningur liðki fyrir næstu viðræðum sem fram undan er.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vonar að nýr kjarasamningur liðki fyrir næstu viðræðum sem fram undan er. Vísir/Vilhelm

Aðgerðir til að liðka fyrir kjaraviðræðum sem snúa að barnabótum og húsnæðismálum eru til umræðu í þjóðhagsráði að sögn fjármálaráðherra. Hann kveðst ánægður með nýgerðan samning Starfsgreinasambandsins. 

Í þjóðhagsráði sitja ásamt formönnum stjórnarflokkanna í ríkisstjórn og fulltrúar nokkurra stéttarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og seðlabankans. Bjarni segir útspil stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum til umræðu á þeim vettvangi.

„Í þessari lotu erum við í ríkisstjórninni mikið að horfa til þeirra sem eru á lægri endanum. Við höfum rætt barnabætur, húsnæðismál, húsnæðiskostnað þeirra sem eru með minna á milli handanna. Það þarf að auka framboð á húsnæði svo húsnæðisliðurinn hætti að valda auknum þrýstingi á verðhækkanir í landinu. Ég held að með sameiginlegu átaki sé þetta allt saman viðráðanlegt.“

Rætt er við fjármálaráðherra hér að neðan.

Hann segist fullviss um að stjórnvöld geti skilað sínu í þeim efnum.

„Útfærslan er eitthvað sem við erum tilbúin að hlusta eftir hugmyndum um.“

Takist að ná tökum á verðbólgunni sé hægt að sækja frekari lífskjarabætur. Hann segist því sýna því ákveðinn skilning að nú sé verið að landa kjarasamningum til skamms tíma og bindur vonir við að nýgerður samningur Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins verði til þess að ryðja brautina fyrir aðra og telur raunar niðurstöðuna góða fyrir alla aðila.

„Mér sýnist að það séu töluverðar kjarabætur í þessum samningi sömuleiðis og ánægjulegt að tekist hafi samkomulag við Samtök atvinnulífsins um þessa niðurstöðu, þó að hún sé til skamms tíma. Maður verður að sýna því skilning að vegna ákveðinnar óvissu, meðal annars vegna verðbólgunnar, að menn vilji semja til skemmri tíma. Þetta ryður vonandi brautina fyrir aðra sem kunna að koma í kjölfarið. Það er það sem maður bindur vonir við.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×