Portúgal flaug inn í átta liða úrslitin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Goncalo Ramos skoraði þrennu fyrir Portúgal og lagði upp eitt til viðbótar.
Goncalo Ramos skoraði þrennu fyrir Portúgal og lagði upp eitt til viðbótar. Eric Verhoeven/Soccrates/Getty Images

Portúgal varð í kvöld seinasta þjóðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins í Katar er liðið vann öruggan 6-1 sigur gegn Sviss. Gonçalo Ramos, sem kom inn í byrjunarliðið fyrir Cristiano Ronaldo, stal senunni og skoraði þrennu.

Það varð fljótlega ljóst í hvað stefndi eftir að leikurinn hófst því portúgalska liðið hafði mikla yfirburði frá fyrstu mínútu. Liðið náði forystunni strax á 17. mínútu með marki frá Gonçalo Ramos áður en hinn margreyndi Pepe bætti öðru marki við með skalla eftir rúmlega hálftíma leik.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og staðan var því 2-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gonçalo Ramos var svo aftur á ferðinni á 51. mínútu leiksins þegar hann breytti stöðunni í 3-0 og fjórum mínútum síðar lagði hann upp fjórða mark lísisn fyrir Raphael Guerreiro.

Eftir rétt tæplega klukkutíma leik náði Svisslendingar að klóra aðeins í bakkann þegar Mauel Akanji setti boltann í netið eftir hornspyrnu frá Xherdan Shaqiri, en Gonçalo Ramos innsiglaði þrennu sína á 67. mínútu leiksins og kom portúgalska liðinu í 5-1.

Rafael Leao gerði svo endanlega út um leikinn þegar hann skoraði sjötta mark Portúgal í uppbótartíma.

Portúgal er því á leið í átta liða úrslit HM þar sem liðið mætir Marokkó sem hafði betur gegn Spánverjum í vítaspyrnukeppni fyrr í dag. Svisslendingar hafa hins vegar lokið leik á HM og eru á heimleið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira