Erlent

Greindi ekki frá 19,8 milljón dala láni frá Daewoo

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump bar að greina sérstaklega frá láninu.
Trump bar að greina sérstaklega frá láninu. AP/Rebecca Blackwell

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, greindi ekki frá 19,8 milljón dala láni eins og hann átti að gera þegar hann bauð sig fram til forseta árið 2016 og eftir að hann bar sigur úr býtum í kosningunum.

Lánið var frá suður-kóreska fyrirtækinu Daewoo, sem var eina fyrirtæki landsins sem hafði heimild til þess á 10. áratug síðustu aldar að starfa í Norður-Kóreu.

Frá þessu greinir Forbes en í umfjöllun blaðsins segir að tengsl Daewoo og Trump nái aftur um að minnsta kosti 25 ár. 

Daewoo og fyrirtæki í eigu Trump áttu meðal annars í samstarfi um framkvæmdir við Trump World Tower í New York, nærri höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Þá var nafn Trump notað á sex fasteignum Daewoo í Suður-Kóreu frá 1999 til 2007.

Það vekur athygli að lánið sem um ræðir stóð í 19,8 milljónum dala frá 2011 til 2016 en upphæðin lækkaði í 4,3 milljónir fimm mánuðum eftir að Trump tók við embætti forseta. Þá var lánið „keypt“ af Daewoo árið 2017 en ekki er vitað hver tók við skuldinni eða gerði hana upp.

Það er ekki víst að Trump hafi brotið lög með því að tilkynna ekki um lánið þegar hann átti að gera grein fyrir öllum hagsmunum sínum. Skuldin hafði þó óneitanlega nokkra hagsmunaárekstra í för með sér.

„Hann kann vel við mig, ég kann vel við hann. Okkur semur,“ sagði Trump um Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, árið 2018. Þá sagði hann þá hafa „orðið ástfangna“.

Kviðdómur í New York liggur nú undir feldi í umfangsmiklu skattsvikamáli gegn Trump Organization.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×