Innlent

Forseti Íslands og forsetafrú til Strassborgar

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú Vísir/Vilhelm

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú munu heimsækja Evrópuráðið í Strassborg í Frakklandi dagana 6.-7. desember.  Þar mun forsetinn taka þátt í dagskrá og fundum í tengslum við formennsku Íslands í ráðinu.

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands kemur fram að þann 6.desember muni Guðni taka þátt í viðburði í Evrópuráðinu um stafrænt kynbundið ofbeldi. Viðburðurinn er skipulagður af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópuráðinu, í tengslum við fund aðildarríkja Istanbúlsamningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Með ráðstefnunni verður í fyrsta sinn leitt saman starf Evrópuráðsins um netglæpi annars vegar og um kynbundið ofbeldi hins vegar. Á viðburðinum verður lögð áhersla á þátt karla og drengja í jafnréttisbaráttu og heldur forseti þar opnunarávarp.

Síðdegis 6. desember er Guðna síðan boðið sem heiðursgesti í þjóðhátíðarmóttöku fastanefndar Finnlands í Strassborg og mun hann þar ávarpa samkomuna.

Miðvikudaginn 7. desember á Guðni síðan fund með varaframkvæmdastjóra Evrópuráðsins, Björn Berge. Þá fundar hann með aðstoðardómsmálaráðherra Úkraínu um ábyrgðarskyldu vegna glæpa sem framdir hafa verið í innrásinni í Úkraínu. Á hádegi  verður forsetinn síðan sérstakur gestur á fundi ráðherranefndar Evrópuráðsins. Þar mun hann ávarpa fundinn og ræða leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í maí 2023 þar sem Ísland verður gestgjafi. Einnig mun hann heimsækja Mannréttindadómstól Evrópu og funda með forseta dómstólsins, Síofra O'Leary.

Þá mun Eliza Reid forsetafrú meðal annars taka þátt í viðburði um íslenskar bókmenntir ásamt Einari Kárasyni rithöfundi og opna jólamarkað starfsfólks Evrópuráðsins til styrktar stríðshrjáðu fólki í Úkraínu.

Þá sækja forsetahjónin sérstaka sýningu á dönsk-íslensku kvikmyndinni Volaða land fyrir starfsfólk Evrópuráðsins og fastanefndir aðildarríkjanna í Strassborg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×