Matty Cash fer þó ekki alveg tómhentur heim því það eru margir sem öfunda hann af treyjunum sem hann krækti í eftir tvo síðustu leiki pólska liðsins á HM.
Matty Cash skipti um treyju við Kylian Mbappe eftir Frakkaleikinn í gær og hafði í síðustu viku fengið treyjuna frá Lionel Messi.
Mbappe og Messi hafa verið tveir af bestu leikmönnum HM til þessa og við erum að tala um mögulega besta fótboltamann sögunnar í Messi og framtíðar risastjörnu fótboltans næsta áratuginn.
Mbappe er nú kominn með fimm mörk og tvær stoðsendingar á HM en Messi er með þrjú mörk og eina stoðsendingu. Þeir gætu mæst í undanúrslitum vinni Frakkland og Argentína leiki sína í átta liða úrslitunum.
Hinn 25 ára gamli Cash er fæddur og uppalinn í Englandi en fékk pólsk ríkisfang í október 2021 þar sem foreldrar móður hans eru pólskir.
Cash spilaði sinn fyrsta landsleik 12. nóvember í fyrra og hefur spilað ellefu landsleiki síðan.
Cash spilar með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni og hefur gert það frá september 2020 þegar hann skrifaði undir fimm ára samning.