32 lið hafa spilað á HM undanfarin ár en þeim verður fjölgað í 48 fyrir HM 2026 sem fram fer í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Lagt hefur verið upp með að liðin 48 spili í 16 þriggja liða riðlum.
Tvö lið myndu komast áfram úr hverjum riðli og mynda 32-liða úrslit. Með oddatölufjölda í riðlunum er hins vegar ljóst að fyrirkomulagið gæti reynst vandasamt. Liðin tvö sem spila síðasta leik í riðlakeppninni gætu hæglega kallað fram úrslit sem myndu hleypa þeim áfram á kostnað þriðja liðsins sem verður búið með sína tvo leiki.
FIFA þurfti að bregðast við eftir frægan leik á HM 1982 þegar Vestur-Þýskaland vann Austurríki 1-0 í afar tíðindalitlum leik, úrslit sem hleyptu báðum liðum áfram á kostnað Alsír. Alsír hafði þá spilað sinn síðasta leik en lokaleikir í riðlakeppni á HM hafa síðan verið leiknir á sama tíma svo lið geti ekki skipulagt úrslit með þessum hætti.
Arsene Wenger segir enga ákvörðun hafa verið tekna um fyrirkomulag mótsins en þrjú séu til skoðunar.
„Þetta er ekki ákveðið,“ segir Wenger. „Það verða 16 riðlar þriggja, tólf riðlar með fjórum liðum, eða tvískipt mót með sex fjögurra liða riðla - þar sem mótinu er skipt í tvennt með 24 lið hvoru megin,“
„Ég mun ekki geta ákveðið þetta. FIFA mun taka ákvörðun og gerir það líkast til á næsta ári,“ segir Wenger.