Fótbolti

Tuttugustu og þriðju kaup Nottingham Forest á tímabilinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gustavo Scarpa gengur til liðs við Nottingham Forest í janúar.
Gustavo Scarpa gengur til liðs við Nottingham Forest í janúar. Vísir/Getty

Nottingham Forest hefur gengið frá kaupunum á hinum brasilíska Gustavo Scarpa frá Palmeiras. Scarpa gengur til liðs við Forest í janúar en hann er tuttugasti og þriðji leikmaðurinn sem liðið kaupir á tímabilinu.

Scarpa leikur sem framliggjandi miðjumaður og hefur skorað 37 mörk í 211 leikjum fyrir Palmeiras og var í liðinu sem tryggði sér ellefta meistratitilinn í Brasilíu í síðasta mánuði. Scarpa skrifar undir þriggja og hálfs árs samning við Nottingham Forest.

„Ég er mjög ánægður að vera kominn hingað, þetta er draumur fyrir mig,“ sagði hinn 28 ára gamli Scarpa sem lék einn landsleik fyrir Brasilíu árið 2017.

„Þetta er ný áskorun og ég get ekki byrjað eftir því að hún hefjist. Það hefur alltaf verið markmið hjá mér, síðan ég var lítill strákur, að spila í Evrópu og það er draumur að spila í ensku úrvalsdeildinni.“

Scarpa er tuttugasti og þriðji leikmaðurinn sem Scarpa kaupir á tímabilinu og hann mun taka þátt í æfingabúðum liðsins í Grikklandi í næstu viku. Forest mun þar leika æfingaleiki við Olympiacos og Atromitos.

Forest hefur leik að nýju í Carabao bikarnum í Englandi þann 21.desember og fyrsti leikur þeirra í ensku úrvalsdeildinni eftir pásuna vegna heimsmeistaramótsins verður gegn Manchester United þann 27.desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×