Fótbolti

Búist við að Saka komi inn í byrjunar­liðið á kostnað Foden eða Ras­h­ford

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bukayo Saka fagnar Phil Foden eftir 3-0 sigur Englands gegn Wales í riðlakeppninni.
Bukayo Saka fagnar Phil Foden eftir 3-0 sigur Englands gegn Wales í riðlakeppninni. Vísir/Getty

England mætir Senegal í kvöld í 16-liða úrslitum heimsmeistarakeppninnar í Katar. Enskir fjölmiðlar greina frá því að Bukayo Saka komi inn í byrjunarlið Englands á kostnað Phil Foden eða Marcus Rashford sem báðir skoruðu í síðasta leik.

England fór nokkuð þægilega í gegnum B-riðil heimsmeistarakeppninnar. Liðið vann 6-2 sigur á Íran í fyrsta leik en gerði síðan jafntefli við Bandaríkin áður en þeir unnu 3-0 sigur á Wales í lokaleik riðlakeppninnar.

Í leiknum gegn Wales gerði Gareth Southgate landsliðsþjálfari tölverðar breytingar á byrjunarliði sínu og fór Bukayo Saka meðal annars á bekkinn á meðan Marcus Rashford og Phil Foden komu báðir inn í byrjunarliðið. Þeir Foden og Rashford nýttu tækifærið heldur betur vel því Rashford skoraði tvö mörk og Foden eitt í 3-0 sigri enska liðsins.

Þrátt fyrir góða frammistöðu enska liðsins í síðasta leik greina fjölmiðlar frá því núna í morgunsárið að Saka komi aftur inn í byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Senegal í kvöld og annaðhvort Foden eða Rashford þurfi því að víkja.

Í umfjöllun Skysports segir fréttamaðurinn Melissa Reddy að þrátt fyrir að rætt hafi verið um að byrjunarliðið gæti verið óbreytt frá sigrinum gegn Wales þá sé búist við því að Saka komi aftur inn í liðið.

„Sú staðreynd að Saka var hvíldur í síðasta leik þýðir að þetta hafi jafnvel verið skipulagt frá upphafi. Þá er spurning hvað Southgate gerir á öðrum stöðum framarlega á vellinum. Foden og Rashford bjóða báðir upp á eitthvað öðruvísi, Rashford er beinskeyttur en Foden sýndi þokka og kraft með boltann gegn Wales. Ég held að það muni ekki margir setja út á það ef Saka kemur aftur inn í liðið.“

„Raheem Sterling er leikmaður sem Southgate treystir og Southgate hefur aldrei stillt upp byrjunarliðið í útsláttarleik án Sterling. Samvinna Sterling og Harry Kane hefur verið ein af grunnstoðum hans.“

Þá er talið mögulegt að Jordan Henderson verði einn af þremur miðjumönnum liðsins en Rob Dorsett, fréttamaður Skysports, segir líklegast að Southgate stilli upp í 4-3-3 leikkerfi sem hafi reynst Englendingum vel í riðlakeppninni.

„Declan Rice og Jude Bellingham eru augljóst val á miðjunni og Jordan Henderson gæti vel verið valinn á kostnað Mason Mount vegna reynslu hans og stöðugleika.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.