Erlent

Fiskveiðisamningur Færeyja og Rússlands sagður smekkleysa

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Þórshöfn í Færeyjum
Þórshöfn í Færeyjum Celal Gunes/Getty Images

Evrópusambandið gagnrýnir nýjar fiskveiðisamning Færeyja og Rússlands. Þingmaður Dana á Evrópuþinginu segir samninginn smekklausan.

Stærsti samningur í sögu Færeyja

Samningurinn sem Færeyingar gerðu við Rússa er langstærsti fiskveiðisamningur sem Færeyingar hafa gert við aðra þjóð. Hann felur í sér að færeysk skip geta veitt um 18 þúsund tonn af þorsk, ýsu og rækju í Barentshafi og Rússar geta veitt tæplega 100.000 tonn af kolmunna, síld og makríl í færeyskri lögsögu.

Árni Skaale, sjávarútvegsráðherra Færeyja, segir að gildi samningsins jafngildi um 5 prósentum af þjóðarframleiðslu Færeyja, en Færeyingar hafa gert fiskveiðisamninga við Rússa í tæplega hálfa öld, eða allt frá árinu 1977.

Segir samninginn smekkleysu

Morten Helveg Petersen, þingmaður De Radikale á Evrópuþinginu, segir að samningurinn sé smekkleysa á sama tíma og aðrar þjóðir Evrópu leggi áherslu á að standa saman gegn grimmdarverkum Rússa í Úkraínu.

Árni Skaale blæs á þessa gagnrýni. Hann bendir á að viðskiptabann Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi gildi ekki um matvæli, og að umfang samningsins fyrir Færeyinga jafngildi því að Danir myndu leggja niður innlendan landbúnað, og gott betur. Hann bendir sömuleiðis á að ríki Evrópu eigi enn í alls kyns viðskiptum við Rússa. Þá má nefna að Norðmenn endurnýjuðu einnig fyrir skemmstu fiskveiðisamning sinn við Rússa.

Kosningar í Færeyjum á fimmtudag

Þingkosningar fara fram í Færeyjum á fimmtudag í næstu viku, en þessi samningur breytir vart miklu um niðurstöður þeirra þar sem almenn samstaða ríkir á eyjunum, jafnt meðal almennings og stjórnmálaflokkanna um að ganga til samninga við Rússa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×