Bæði lið áfram eftir magnaðan sigur Kóreumanna

Sindri Sverrisson skrifar
Hwang Hee-chan fór úr treyjunni þegar hann fagnaði sigurmarki sínu gegn Portúgal í mögnuðum sigri Suður-Kóreu.
Hwang Hee-chan fór úr treyjunni þegar hann fagnaði sigurmarki sínu gegn Portúgal í mögnuðum sigri Suður-Kóreu. Getty

Suður-Kórea afrekaði það að vinna Portúgal, 2-1, í lokaumferð H-riðils á HM karla í fótbolta og það dugði liðinu til að komast í 16-liða úrslit á fleiri skoruðum mörkum en Úrúgvæ.

Hwang Hee-chan reyndist hetja Kóreumanna með því að skora sigurmark í upphafi uppbótartíma. Þeir fögnuðu sigrinum en þurftu svo að bíða í tæpar tíu mínútur, milli vonar og ótta, eftir því að vita hvernig úrslitin yrðu í leik Úrúgvæ og Gana. Þar var staðan 2-0 fyrir Úrúgvæ en eitt mark í viðbót hefði dugað Úrúgvæ til að komast upp fyrir Suður-Kóreu í 2. sæti riðilsins.

Tapið hafði ekki áhrif á Portúgal sem endaði á toppi H-riðils og mætir því liðinu úr 2. sæti G-riðils, sem lýkur í kvöld. Kóreumenn mæta sigurliði G-riðils sem líklegt er að verði Brasilía.

Ricardo Horta, sóknarmaður Braga, lék sinn fyrsta leik á HM og hann kom Portúgal yfir strax á fimmtu mínútu leiksins. Pepe hafði þá átt langa sendingu fram á Diogo Dalot sem gerði afar vel og kom boltanum út í teiginn á Horta sem skoraði.

Suður-Kórea náði hins vegar að jafna eftir hornspyrnu á 27. mínútu, en klaufaskapur Cristiano Ronaldo spilaði þar inn í. Boltinn hrökk af öxl eða baki Ronaldos og beint til Kim Young-gwon sem skoraði næsta auðveldlega úr dauðafæri.

Cristiano Ronaldo fékk boltann einhvern veginn í öxlina þannig að hann féll beint fyrir fætur Kim Young-gwon sem skoraði.Getty/Chris Brunskill

Í hinum leik dagsins náði Úrúgvæ snemma forystunni og það var því ljóst að Kóreumenn ættu möguleika á að komast í 16-liða úrslitin, en til þess þurftu þeir sigurmark.

Það virtist ekki ætla að koma því liðinu gekk illa að skapa sér færi í seinni hálfleiknum, gegn hinu sterka liði Portúgals. 

En þegar öll sund virtust lokuð komust Kóreumenn í skyndisókn á fyrstu mínútu uppbótartíma og þar gerði Son Heung-min afskaplega vel í því að bera boltann uppi og koma honum á hárréttum tíma inn á Hwang Hee-chan sem nýtti færið vel og var alveg sama þó að hann fengi gult spjald í fagnaðarlátunum.

Kóreumenn þurftu eins og fyrr segir að bíða lengi eftir niðurstöðu úr hinum leiknum en fögnuðu svo ógurlega þegar í ljós kom að þeir væru komnir áfram í 16-liða úrslitin.

Kóreumenn biðu saman úti á velli eftir niðurstöðunni úr leik Úrúgvæ og Gana.Getty

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.